Hvernig viltu styrkja?

Matthildur - samtök um skaðaminnkun

Matthildur, samtök um skaðaminnkun voru stofnuð árið 2022 og hafa unnið markvisst að bættum réttindum og auknu öryggi fólks sem notar vímuefni. Grundvallarsýn samtakanna er skýr: Tryggja öllum aðgang að gagnreyndri skaðaminnkandi þjónustu sem getur bjargað mannslífum, bætt heilsu og aukið lífsgæði.

Matthildarsamtökin standa vörð um mannréttindi fólks sem notar vímuefni og berjast fyrir breyttri vímuefnastefnu sem byggir á lýðheilsusjónarmiðum, vísindalegum rannsóknum og mannréttindum.

Starf samtakanna felst í víðtæku málsvarastarfi á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum og innan stjórnsýslunnar. Samtökin veita sérfræðiráðgjöf til stofnana og þjónustuveitenda, halda fræðsluviðburði og ráðstefnur með innlendum og erlendum sérfræðingum og halda úti fræðslu á samfélagsmiðlum um skaðaminnkun og vímuefnatengd mál.

Að auki reka samtökin tvær mikilvægar skaðaminnkandi þjónustur:

Reykur

Skaðaminnkandi þjónusta og stuðningur til fólks sem reykir ópíóíða og örvandi vímuefni. Þjónustan er veitt tvisvar í viku í nærumhverfi fólks (í bíl) á höfuðborgarsvæðinu og með símaráðgjöf og póstsendingu fyrir fólk á landsbyggðinni. Markmið þjónustunnar er að draga úr dauðsföllum og ofskömmtunum, fyrirbyggja þróun í þyngri vímuefnavanda og auka aðgengi fólks að ópíóíðalyfjameðferð, félags- og heilbrigðisúrræðum

Matthildarteymið

Skaðaminnkandi þjónusta og sálrænn stuðningur í skemmtana- og tónlistarlífinu á Íslandi. Lögð er áhersla á að ná til fólks á fyrri stigum vímuefnanotkunar og andlegrar vanlíðunar. Teymið setur upp þjónustuna í sérrými á hátíðum og veitir jafnframt færanlega þjónustu um svæðin. Þjónustan snýr að lýðheilsu og snemmtækum inngripum.

Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki í öllu starfi Matthildarsamtakanna og er rekstur samtakanna mjög háður styrkjarframlögum frá almenningi.

Við þiggjum því allan stuðning með miklu þakklæti!

Heimasíða Matthildarsamtakanna: https://www.matthildurskadaminnkun.is/