Afsláttur af styrkjum til góðgerðarfélaga
Í lok árs 2021 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um skatta og gjöld sem gott er að vita að. Breytingunum er ætlað að hvetja einstaklinga til þess að gefa til góðgerðarmála. Stærsti hvatinn er líklega sá að nú gefst einstaklingum tækifæri á að telja framlag sitt til góðgerðarfélaga fram á skattframtali og fá þannig afslátt af sköttum og gjöldum þess árs. Í einhverjum tilfellum getur það þýtt endurgreiðslu á greiddum sköttum.
Framkvæmdin er einföld. Þú velur þér gott málefni sem þú vilt styrkja með stöku eða mánaðarlegu framlagi. Til þess að fá endurgreiðsluna þarf góðgerðarfélagið sem þú styrkir að vera skráð á almannaheillaskrá Skattsins.
Ef þú styrkir góðgerðarfélög (eitt eða fleiri) um meira en 10.000 krónur á ári getur þú dregið það framlag frá skattstofni, sem kemur til lækkunar á greiðslum til Skattsins eða endurgreiðslu. Einstaklingar mega telja fram styrki fyrir allt að 350.000 krónur.
Hér fyrir neðan geturðu séð hvernig endurgreiðslan virkar*:
Það sem einfaldar þér þetta enn frekar er að félagið sem þú styrkir á sjálft að koma þeim upplýsingum á framfæri til Skattsins. Það þýðir að þegar þú fyllir út skattaskýrsluna þína ættu upplýsingar um styrkina þína að vera fyrirfram útfylltar á skattaskýrsluna. Þú þarft því ekkert að gera.
*Sjá nánar 7. tölul. A-liður 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skilyrði fyrir frádrætti er að félag sem tekur á móti gjöfinni starfi til almannaheilla og sé skráð á almannaheillaskrá Skattsins.
Athugið að greiðslur fyrir vörur og þjónustu, svo sem úr vefverslun góðgerðarfélags, skapa ekki rétt til skattfrádráttar.
Í dæmunum er gert ráð fyrir tekjuskattshlutfalli meðaltekna (37,95%). Athugið að tekjuskattshlutfall er breytilegt eftir tekjum.